Eigendastefna

Á grundvelli eignarhalds Kjölfestu er sett fram eigendastefna þar sem Kjölfesta sem minnihluta- eða meirihlutaeigandi setur fram viðmið

Eigendastefna Kjölfestu

Á grundvelli eignarhalds Kjölfestu er sett fram eigendastefna þar sem Kjölfesta sem minnihluta- eða meirihlutaeigandi setur fram viðmið varðandi starfshætti. Stjórnendur, stjórnarmenn og aðrir sem taka þátt í stjórnun og rekstri fyrir hönd Kjölfestu skulu viðhafa fagleg og heiðarleg vinnubrögð. Mikilvægt er að tryggðir séu sameiginlegir hagsmunir Kjölfestu, meðfjárfesta og stjórnenda viðkomandi félags við hverja fjárfestingu.

Fjárfestingar

Kjölfesta gerir kröfu um að þau fyrirtæki sem félagið fjárfestir í starfi samkvæmt lögum og reglum og sýni samfélagslega ábyrgð.

Kjölfesta hefur það meginmarkmið að ná fram góðri ávöxtun með fjárfestingum í íslenskum verðbréfum.  Markmið Kjölfestu eru skýr:

  • Fjárfest er í íslenskum fyrirtækjum.
  • Gerð er krafa um a.m.k. 15% nafnávöxtun á ári og fer það eftir áhættu og eðli fjárfestingarinnar.
  • Gerð er krafa um skýr markmið um seljanleika eignar í lok fjárfestingartímans.
  • Fjárfestingar Kjölfestu verði til þess að styrkja vöxt og viðgang íslensks atvinnulífs.
  • Kjölfesta mun gæta vel að eigendahlutverki og hagsmunum sínum m.a. með því að gera hluthafasamkomulag við hverja fjárfestingu.

Kjölfesta mun setja fram árangursviðmið fyrir hverja og eina fjárfestingu allt eftir eðli máls. Kjölfesta mun koma að rekstri fyrirtækja með beinum hætti með því að tilnefna aðila í stjórn fyrirtækisins.

Upplýsingagjöf

Kjölfesta leggur ríka áherslu á gegnsæi og reglulega upplýsingagjöf frá fyrirtækjum sem fjárfest er í. Mikilvægt er að ársreikningar og árshlutaupplýsingar liggi fyrir og innan tilskilins frests. Auk þess sem reglulegir upplýsingafundir skulu haldnir fyrir hluthafa og þeir upplýstir um allar meiriháttar breytingar hjá viðkomandi félagi.

Stjórnir og starfshættir

Við skipan stjórnarmanna í fyrirtæki skal taka mið af hæfni og þekkingu viðkomandi allt eftir eðli og rekstri viðkomandi félags. Stjórnarmenn skulu gæta að hæfi sínu og vinna sjálfstætt. Í stjórn og rekstri fyrirtækja sem Kjölfesta kemur að sem fjárfestir skal ríkja jafnræði og jafnrétti.

 

Svæði