Fjárfestingarferli

Verkferli fjárfestinga  Markmið Kjölfestu er að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Ætlunin er að móta eignasafn sem er dreift á milli

Fjárfestingarferli

Verkferli fjárfestinga

 Markmið Kjölfestu er að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Ætlunin er að móta eignasafn sem er dreift á milli atvinnugreina og fyrirtækja.  Lögð verður áhersla á fyrirtæki með gott sjóðstreymi, rekstrarsögu og fullreynt viðskiptalíkan. Nánar er kveðið á um heimildir til fjárfestinga í fjárfestingastefnu félagsins.

Fjárfestingarákvarðanir eru teknar af fjárfestingaráði sem skipað er fimm aðilum kosnum á hluthafafundi. Fjárfestingaráð hefur sett sér reglur til að starfa eftir.

Verklagsreglur eru settar fram til að skýra verk- og vinnulag Kjölfestu við fjárfestingarákvarðanir.  

                 

 Kynning og skoðun

Framkvæmdastjóri skoðar og metur öll þau fjárfestingartækifæri sem koma inn á borð Kjölfestu. Kjölfestu berast tillögur að fjárfestingartækifærum úr ýmsum áttum eins og frá:

 • Aðilum sem hafa beint samband við Kjölfestu
 • Virðingu
 • ALM
 • Hluthöfum sjálfum
 • Að frumkvæði Kjölfestu

Framkvæmdastjóri heldur skrá yfir öll fjárfestingartækifæri sem kynnt eru fyrir Kjölfestu. Á  listanum koma fram upplýsingar um hvenær verkefnið var kynnt, hvaða atvinnugrein þau tilheyra, möguleg fjárhæð, hver kynnti tillöguna og hver staða málsins er.

Framkvæmdastjóri metur síðan hvort viðkomandi fjárfesting fellur innan fjárfestingarstefnu og hvort fara á út í frekari greiningu til að kanna kosti fjárfestingarinnar fyrir Kjölfestu. Við skoðun á því hvort fjárfesting er innan fjárfestingarstefnu Kjölfestu er m.a. skoðað:

 • Fjárhæð fjárfestingarinnar. Hámark einstakrar fjárfestingar er 25% af stærð sjóðsins
 • Atvinnugrein, hámark er 40% fyrir hverja grein
 • Rekstrarsaga viðkomandi félags. Helst að fyrir liggi 3ja ára rekstrarsaga
 • Sjóðstreymi félagsins
 • Möguleg sala í lok fjárfestingatímabilsins
 • Siðferðileg og ímyndarleg málefni tengd viðkomandi fjárfestingu og aðilum tengdum viðkomandi félagi
 • Helstu áhættuþættir í rekstri viðkomandi félags
 • Stjórnendur viðkomandi félags
 • Mögulegir meðfjárfestar ef við á

Greining

Ef skoða á fjárfestingarkost frekar þá er nauðsynlegt að vinna frekari fjármálagreiningu og e.t.v. verðmat á félaginu. Oft liggja fyrir greiningar- og verðmöt frá viðkomandi aðilum sem hægt er að notast við.

Kjölfesta nýtur aðstoðar fyrirtækjaráðgjafar ALM og Virðingar við greiningar og mat á fjárfestingarkostum.

Við greiningar er leitast við að hafa rekstrarupplýsingar allt að þrjú ár aftur í tímann og áætlun allt að 5 ár fram í tímann. Mikilvægt er að fyrir liggi endurskoðað uppgjör viðkomandi félags. Við greiningu er lagt mat á rekstrarhæfi sem og mat á eignum og skuldum viðkomandi félags. Auk þess sem dregin er upp mynd af lykilþáttum, KPI, fyrir viðkomandi félag.

Við greiningarvinnu er mikilvægt að gera sér grein fyrir væntri ávöxtun Kjölfestu sem og framtíðarmöguleikum viðkomandi félags.

Kynning fyrir fjárfestingaráði

Eins og fram kom hér að framan tekur fjárfestingaráð endanlega ákvörðun um allar fjárfestingar Kjölfestu. Mikilvægt er að fjárfestingaráð hafi tök á því að kynna sér vel allar fjárfestingar og því er lagt upp með að fjárfestingaráð fái að jafnaði kynningu á fjárfestingarkostum áður en farið er út í viðamikinn kostnað við skoðun á fjárfestingunni. Fjárfestingaráð hefur því tök á því að koma með athugasemdir og tillögur að þeim þáttum sem sérstaklega skal hafa í huga við greiningu á viðkomandi fjárfestingarkosti.

Við kynningu fyrir fjárfestingaráði er lögð fram útfærsla á:

 • Fjárhæð fjárfestingarinnar
 • Meðfjárfestum ef um slíkt er að ræða
 • Upplýsingaskjal um viðkomandi félag
 • Ávöxtun yfir tímabilið
 • Áætlun um sölu í lok tímabilsins

Verðmat og áreiðanleikakönnun

Við greiningu á fjárfestingarkostum skal leitast við að fyrir liggi áreiðanleikakönnun, hvort sem Kjölfesta óskar eftir því að áreiðanleikakönnun sé gerð eða notast er við skýrslur sem fyrir liggja. Fjárfestingaráð þarf að samþykkja kostnað vegna vinnu við gerð áreiðanleikakönnunar sem og allan kostnað tengdum mati á fjárfestingum fyrir félagið. Eins og áður hefur komið fram munu ALM og Virðing vinna verðmat og greiningu á fjárfestingarkostum fyrir Kjölfestu. Ef óskað er eftir verðmati frá utankomandi aðila þá þarf fjárfestingaráðið að samþykkja kostnað við gerð matsins.

Ákvörðun

Fjárfestingaráð tekur ákvarðanir um fjárfestingar Kjölfestu á fundum ráðsins.  Til að ákvörðun fjárfestingaráðs sé gild verða að lágmarki þrír fulltrúar í ráðinu að greiða henni atkvæði. Fjárfestingaráð skal leitast eftir því að ráðið sé samstíga í  ákvörðunum sínum. Fulltrúi í fjárfestingaráði hefur neitunarvald í ákvörðun um fjárfestingu ef málefnalegar ástæður liggja þar að baki.

 

Svæði