Fjárfestingarstefna

Meginmarkmið Kjölfesta fjárfestir í íslenskum verðbréfum. Markmiðið er að móta eignasafn sem er dreift á milli atvinnugreina og fyrirtækja. Lögð verður

Fjárfestingarstefna

Meginmarkmið

Kjölfesta fjárfestir í íslenskum verðbréfum.

Markmiðið er að móta eignasafn sem er dreift á milli atvinnugreina og fyrirtækja. Lögð verður áhersla á smá og meðalstór fyrirtæki með gott sjóðstreymi, rekstrarsögu og fullreynt viðskiptalíkan.                                                                                            

Kjölfesta mun gegna eigendaskyldu með virkum hætti, virða reglur um hæfi stjórnarmanna og rækja hlutverk sitt sem kjölfestufjárfestir með samfélagslega ábyrgum hætti. Félagið leggur áherslu á gerð áhættumats og góða upplýsingagjöf. Kjölfesta hefur þá meginstefnu að vera minnihlutaeigandi í fyrirtækjum en getur verið meirihlutaeigandi ef fyrir liggur skýr stefna varðandi sölu eigna (exit) og með hvaða hætti fjárfestar ætla að leiða fyrirtækið áfram.

Eignahlutur

  • Minnihluti: Fjárfest er með leiðandi fjárfestum. Samningar eða samkomulag við aðra fjárfesta um útgöngu eða hluthafasamkomulag sem tryggir rétt og stöðu félagsins.
  •  Meirihluti: Meirihlutaeigandi með skýrt markmið um útgöngu, með samruna við annað fyrirtæki, skráningu á markað eða sölu. Samstarf við leiðandi fjárfesta og stjórnendur um stjórnun og stefnumörkun fyrirtækis.

Fjárfestingasvæði

Kjölfesta fjárfestir eingöngu á Íslandi og í íslenskum verðbréfum.  Uppgjörsmynt félagsins er ISK.

Fjárfestingar

  • Þátttaka í fjárhagslegri endurskipulagningu íslenskra fyrirtækja. Félagið mun vinna með núverandi stjórnendum og eigendum við að auka eigið fé fyrirtækis.
  • Fjárfesting í fyrirtækjum sem eru að auka starfsemi sína á hefðbundnum mörkuðum til framleiðslu eða útflutnings eða annarrar virðisskapandi starfsemi.
  • Aðkoma að fyrirtækjum með það að markmiði að ná samruna við önnur fyrirtæki.
  • Kaup á fyrirtækjum með sterka markaðsstöðu og stöðugt tekjustreymi.

Atvinnugreinar

Kjölfesta mun ekki takmarka fjárfestingar við ákveðnar atvinnugreinar en áhersla verður lögð á neðangreindar atvinnugreinar:

  • Iðnaður / sjávarútvegur: Reksturinn þarf að standa undir eðlilegri fjárfestingu.  Sjóðstreymi gott og markaðsstaða sterk . Tækifæri til samruna.
  • Ferðaiðnaður: Til greina koma ferðaþjónustufyrirtæki svo sem rekstrarfélög í hótelrekstri, bílaleigur, ferðaþjónustufyrirtæki og afþreyingarfyrirtæki á sviði ferðamannaþjónustu.
  • Hugbúnaður/tækni: Horft verður til fyrirtækja sem þegar hafa skapað sér stöðugan tekjugrunn.  Einnig fyrirtæki sem hafa góða vaxtamöguleika erlendis.
  • Verslun og þjónusta: Fyrirtæki með sterka markaðsstöðu og góða ímynd. 

Hámark einstakra atvinnugreina má ekki fara yfir 40% (kaupvirði af markaðsvirði félagsins þegar kaupin eiga sér stað).

Félagið mun ekki fjárfesta í fasteignaverkefnum, sprotafyrirtækjum, bönkum eða verðbréfafyrirtækjum.

Tegundir verðbréfa

  •         Hlutabréf: Gert er ráð fyrir að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum fyrirtækja.
  •         Skuldabréf með breytirétti: Ígildi hlutabréfa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Auk þess verður leyft að fjárfesta í skráðum verðbréfum og innlánum með það að markmiði að ávaxta laust fé.

Líftími fjárfestinga

Líftími félagsins er 7 ár. Gert er ráð fyrir að leysa upp félagið fyrir þann tíma.  Heimild er í samþykktum að lengja líftíma félagsins tvisvar sinnum eitt ár í senn.

Áhættunálgun

  • Áhersla á fyrirtæki í stöðugum og vel reyndum rekstri dregur úr áhættu félagsins og eykur seljanleika verðbréfa. 
  • Áhersla er lögð á góða stjórnarhætti.
  • Áhersla er á hluthafasamkomulag til að verja stöðu félagsins sem minnihlutaeiganda.

Ávöxtunarmarkmið

  • Markmið félagsins er að ná 15% nafnávöxtun, árangurstenging er 10% umfram 8% (watermark).  

Einstakar fjárfestingar

Fjárfesting í einstökum fyrirtækjum má ekki fara yfir 25% af eignasafni félagsins.  Miða skal við virði eignasafns þegar fjárfesting á sér stað.

Seljanleiki

Seljanleiki bréfanna eykst með því að  fjárfesta í fyrirtækjum með rekstrarsögu og leggja áherslu á hefðbundnar atvinnugreinar þar sem sjóðstreymi er gott. Einnig verður leitað eftir samstarfi við leiðandi fjárfesta varðandi útgönguleið úr fjárfestingum.  Skráning á markað verður könnuð fyrir stærri fjárfestingar. Gerð verður áætlun um sölu (exit) fyrir hverja fjárfestingu.

Stjórnarhættir

  • Kjölfesta mun gegna eigendaskyldum sínum með virkum hætti og koma á framfæri ábendingum um bættan rekstur, stefnu og stjórnarhætti fyrirtækja á stjórnarfundum og hluthafafundum og með beinum samskiptum við stjórnendur viðkomandi fyrirtækja.
  • Lög og reglur stjórnsýslulaga um hæfi stjórnarmanna munu gilda um aðkomu að málsmeðferð einstakra mála og ákvarðanatöku í stjórn félagsins. Það felur m.a. í sér að fulltrúar í fjárfestingaráði munu ekki taka þátt í umræðum eða ákvörðunum á fundum ráðsins um málefni fyrirtækja þar sem þeir hafa hagsmuna að gæta. Félagið mun leggja áherslu á að sama fyrirkomulag verði viðhaft eftir því sem við á í stjórnum þeirra fyrirtækja þar sem félagið er hluthafi.
  • Kjölfesta mun leggja áherslu á að gegna hlutverki sínu sem fjárfestir með ábyrgum hætti og leggur til grundvallar mikilvægi samfélagslegra gilda.  Auk þess verður rík áhersla lögð á góða stjórnarhætti með það að markmiði að tryggja að hagsmunum félagsins sem fjárfestis sé sem best borgið.
  • Ef félagið kemur að rekstri viðkomandi fyrirtækja og stjórnun þeirra með beinni þátttöku í stjórn mun félagið leita til aðila sem hafa þekkingu á rekstri til að gæta hagsmuna félagsins í stjórn fyrirtækisins.

 

SKILYRÐI FYRIR FJÁRFESTINGUM (e. INVESTMENT CRITERIA)

  • Stærð fjárfestinga, lágmark: 100 m.kr. og hámark: 1.000 m.kr.
  • Fjárfestingar geta verið á bilinu 100 – 1.000 m.kr.   (25% af stærð félagsins).  Ekki er skilyrði að félagið sé meirihlutaeigandi.

Stærð fyrirtækja

Áhersla verður lögð á smá og meðalstór fyrirtæki í eftirfarandi veltuflokkum (m.kr.):

  • 100-500
  • 500-1.000 
  • 1.000-2.000
  • 2.000-4.000
  • 4.000-6.000
  • 6.000-8.000    

Hægt er að víkja frá stærðar viðmiðum fyrir tiltekna fjárfestingu/fyrirtæki með samþykki meirihluta fjárfestingaráðs t.d. ef  fjárfest er í skráningarhæfu fyrirtæki.

Rekstrarsaga

Fjárfest er í fyrirtækjum með rekstrarsögu.  Félagið fjárfestir eingöngu í fyrirtækjum með a.m.k. 3ja ára rekstrarsögu eða  fyrirtækjum sem byggja á rekstri fyrirtækis sem uppfyllir þetta skilyrði.

Stjórnendur

Mikilvægt er að fyrirtæki sem fjárfest er í sé með öfluga stjórnendur sem viðhafa fagleg og heiðarleg vinnubrögð.  Félagið gerir því ráð fyrir að fjárfesting í fyrirtækjum sé unnin í góðri samvinnu við stjórnendur og/eða fyrri eigendur.

Skuldsetning fyrirtækis

Ákveðin tækifæri felast í fjárhagslegri endurskipulagningu íslenskra fyrirtækja, þ.e. að nýtt eigið fé leiði til verulegrar lækkunar á skuldum. Mikilvægt er að skuldsetning fyrirtækja sem fjárfest er í sé skynsamleg eftir fjárhagslega endurskipulagningu.

Markaðsstaða fyrirtækis

Mikilvægt er að fyrirtæki sem fjárfest er í hafi sterka markaðsstöðu sem gerir því kleift að búa til tekjur næstu árin sem standa undir fjárfestingunni. Með sterkri markaðsstöðu aukast líkur á að áætlanir standi og áhætta   fjárfestingarinnar er því minni.

Fjárfestingarþörf

Mikilvægt er að fjárfesta í fyrirtækjum þar sem ekki liggur fyrir mikil fjárfestingarþörf á næstunni. Félagið vill forðast að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum nema að vel athuguðu máli.

Fjármögnun fyrirtækis

Mikilvægt er að fjárfest sé í fyrirtækjum sem hafa langtímafjármögnun eða aðgang að langtímafjármögnun.

Áhættugreining

Kanna skal áhrif nýrrar fjárfestingar á áhættu félagsins.  Leggja þarf fram innanhúss lánshæfismat áður en ráðist er í fjárfestingu.

Seljanleiki

Áætlun um seljanleika (exit) skal gerð fyrir hverja fjárfestingu.

 

 

 

                                                      

 

Svæði